Færsluflokkur: Bloggar

Veikindi - vinna

Er svooo pirruð út í vinnuna mína núna!

Ég fékk sýkingu í líkamann 8.maí, sem seinna fór í blóðið. Ég lá á spítala frá aðfaranótt laugardags til eftir hádegi á mánudegi. Ég var alveg búin á því þegar ég kom heim og átti bara að liggja út af í einhverja daga og helst ekkert á flakki um íbúðina (og hvað þá úti). Ég hætti mér 3x út í búð (Sem er við hliðiná húsinu mínu)og var annars bara heima. 

Ég átti að vinna á fimmtudeginum og helgina eftir, hafði ekki farið í starfsnámið mitt þriðjudag og miðvikudag en þar sem verkirnir, hiti og slappleiki var alveg úr líkamanum á miðvikudeginum var ég tilbúin í vinnuna á fimmtudeginum. EN hlutirnir breyttust og ég var með rosalega verki þegar ég vaknaði á fimmtudagsmorgninum og eftir mikla hugsun hringdi ég mig inn veika, og ákvað með þeirri sem ég talaði við að ég myndi hringja föstudagsmorgun EF ég kæmi í vinnuna um helgina - bara svona eins og venjulega þegar maður er veikur; maður hringir í vinnuna þegar maður er frískur aftur, seinast fyrir hádegi deginum áður en maður á að vinna (til að halda þeirri vagt). 

Verkirnir mögnuðust með deginum og ég fékk hausverk með þannig var sátt við að hafa ekki farið í vinnuna (Samviskubitið að naga mig áður). Verkjalyfin virkuðu svo greinilega eitthvað því ég var góð aftur rétt eftir hádegi, þá klár til að að fara í "intro" í starfsnámið mitt á föstudeginum.

NEMA, ég varð veik aftur fimmtudagskvöldið, gat ekki hreyft mig og grét af sársauka en þó hitalaus þannig hringdi ekki upp á spítala. Róaðist svo aðeins þegar Ato kom heim um miðnætti og náði svo að sofna um og yfir 2 leytið. ... að sjálfsögðu hringdi ég mig inn veika í starfsnámið, og hringdi EKKI í vinnuna, þar sem ég gæti/ætlaði ekki að mæta til vinnu yfir helgina, vildi frekar slappa af og ná öllu úr líkamanum áður en ég byrjaði í starfsnáminu mínu á mánudeginum (seinasta). 

Engir verkir yfir helgina, og ég náði mér á gott ról á ný, og tilbúin í daglega rútínu aftur, og hefur allt gengið frekar vel síðan þá .. 

Þar til ég hringdi í vinnuna mína í gær! Langaði að gráta eftir á ... fékk þvílíkar skammir fyrir að hafa EYÐILAGT þeirra helgi, engan vegin nægt starfsfólk í vinnunni um helgina - og það væri mér að kenna því ég hefði EKKI hringt á föstudeginum! Ég reyndi að útskýra fyrir bossinum að ég og sú sem ég talaði við hefðum talað um að ég myndi hringja EF ég kæmi, annars ekki, og það hafi greinilega verið einhver misskilningur um það - þar sem hún vil meina að ég myndi hringja sama hvað. 

Þá NEITAR hún að það gæti hafa orðið misskilningur, konan væri viss um að ég hafi sagt þetta og þetta. Að auki vildi hún meina að ég myndi  hugsa hvort þessi vinna væri fyrir mig, þar sem ég gæti greinilega ekki mætt þegar ég átti að vera í vinnunni. 

Eins og ég hef dýrkað vinnuna mína, þá eyðilagði þetta samtal allt, og núna hugsa ég ekki um annað hvað næstu 6helgar í röð + 3 vikur í sumar verða "skemmtilegar" í vinnunni.

 

Ég ætla hætta eftir sumarið ..... sem betur fer. 

 

 

 


Yndislegt!

Síðan ég var lítil hef ég átt mér stóra og litla drauma, og reynt mitt besta að láta verða úr þeim – sem hefur gengið fram úr öllum vonum.

“Litlir” draumar voru að fara í Hraðbraut, flytja til DK og fara í skóla, vinna með börnum, sjálfboðaliði, læra nýtt tungumál og ferðast. Ég kláraði Hraðbraut, vann eitt sumar sem sjálfboðaliði í sumarbúðum fyrir born, var aupair í eitt ár og byrjaði í skóla í DK – og ferðaðist um Evrópu. Man ekki eftir einhverjum draum eða ósk sem ég hef ekki látið verða úr nema þeir draumar sem ég hef ætlað mér að upplifa eftir nám.

Fyrsti og stærsti draumurinn var að verða læknir, sem í raun fól í sér að hjálpa fólki. Var um 9 ára þegar sá draumur kom, sem í raun hafði ekkert að styðjast við – ég þekkti enga lækna eða aðra innan um heilsugeirans, né sjálf komið mikið nálægt heilsustarfi.

Þegar ég flutti svo til DK, minnkaði læknisnáms-áhuginn alveg rosalega, þó að hluta til því það er erfitt að komast í námið. Eftir mikla umhugsun um námið og framtíð ákvað ég að reyna ekki að komast inn. (Ég trúi að ef viljinn er fyrir hendi, er allt hægt). Áhuginn á að vera til staðar fyrir fólk var meiri en að sjúkdómsgreina það;og einskonar vélmennavinna, og enginn áhugi  að komast fyrst úr námi eftir minnst 6 ár.  Fyrsta hugsun var þá að fara í hjúkrun, en fannst hálf erfitt að sætta mig við að ”stefna” lægra en áður og launin heilla nú ekki beint í hjúkrunarstarfi.  Í nokkra mánuði flakkaði ég svo á milli ensku, sögu, tungumál, og fleiri náma, en sá ekki fram á neitt starf. Rétt áður en ég sendi svo umsókn breytti ég yfir í hjúkkuna – og núna 2árum seinna veit ég að ég valdi rétt.

Fyrsti árið var ótrúlega erfitt fyrir mig. Ég átti rosalega erfitt með að mingla við stelpurnar í bekknum, átti erfitt með að ná almennilegum tökum á tungumálinu og var (er) glötuð á félagslega sviðinu. Ég skánaði nú sem betur fer í fyrsta starfsnáminu – og með betri tökum á dönskunni fylgdi betri færni á félagslegu hliðinni, en vantar samt þvílíkt ennþá. Sem betur fer hjálpaði rosalega að eiga 2 vinkonur sem ég kynntist þegar ég var aupair. Þær fluttu svo báðar í mars, ... og ég var ein – þangað til ég kynntist Ato ;) Þegar ég byrjaði svo á 2.árinu í skólanum eignaðist ég loksins mínar vinkonur! Og ég byrjaði að vinna, og síðan þá hefur allt gengið eins og í sögu, og ég met nám og  sérstaklega vinnuna rosalega vel.

.... Allar æðislegu sögurnar sem ég hef fengið að heyra, fylgjast með heilu fjölskyldunum dafna – og hin hliðin, sorg við dauðsfall. Haldið í hendina á seinustu stund fólks, kvatt fólk – það sem náði því stigi að komast heim, og hinum sem eyddu seinustu dögunum með okkur þar sem við gerðum það besta til að gera dagana bærilega, hlustað á fólk hrósa fjölskyldu sinni, segja frá lífinu sínu, ákvarðanir um afhverju þeirra tími sé komin, og það besta; fengið þakkir frá fólki fyrir tímann (minn) sem ég gaf þeim.

Ég hef lært að meta lífið á allt annan hátt, þakka fyrir það sem ég hef og hlakka til að takast á við stærri verkefni í lífinu ásamt því að kynnast öðrum hliðum lífsins, í gegnum mínar upplifanir og frásögnum annarra.


Svefn-vandamál!

Shiiii ... langt síðan ég skrifaði blogg!
Hef aldrei tíma til að virkilega setast niður og skrifa! Þvílíkt busy dagar hjá mér, og tíminn flýgur áfram. Ég byrjaði semsagt í starfsnámi um daginn, eða fyrir ca. 2 vikum. Ég hef unnið smá með náminu, og því eru nokkrir dagar þar sem ég yfirgef húsið um hálf 7 á morgnana, og er heima aftur á milli 10 og 11 um kvöldið – þá að sjálfsögðu dauðþreytt.

Ef ég er ”heppin” þá á ég studiedag daginn eftir sem ég er að vinna, og þá get ég sofið aðeins lengur. Ég hef samt lítinn sem engan aga, og þegar ég ætla mér að fara á fætur ”snemma” (fyrir klukkan 10) þá daga sem ég er í fríi þá virkar það engan vegin! Í síðustu viku svaf ég ALLAN studiedaginn minn, og orkaði náttúrulega ekkert um kvöldið því ég var svo dösuð af að hafa sofið svo og svo lengi, ömurlegt.En dagurinn í dag er samt smá öðruvísi. Er með studiedag og er vöknuð klukkan 11! Ætla mér á bókasafnið og sjá íbúð í kvöld ásamt því að klára eitt verkefni, þannig ég næ að gera smá meira í dag en venjulega! :) 

En æfingin skapar meistarann, ekki satt? Þannig með þessu framhaldi þá get ég vaknað alla daga fyrir klukkan 9 árið 2068! Ekki amalegt, svona í tilefni þess að þá er ég að öllum líkindum orðin ellilífeyrisþegi, og hef ekkert að gera við það að vakna fyrir allar aldir. Það er svosem ekkert nýtt, en hef allatíð verið hálfbækluð þegar kemur að svefni. Þó það sé að öllum líkindum bara aldurinn (nei, ég er ekki gömul, en ég get víst ekki forðast það að eldast eins og aðrir!) en þá er ég algjörlega ófær um að sofa einungis 4-5 tíma á hverri nótt, fleiri en eina nótt á viku kannski – en þá verð ég líka að fara sofa um leið og ég kem heim eftir skóla! Þetta gat ég nú samt þegar ég var í menntaskóla. 4 – 5 tímar á hverri nótt, nótt eftir nótt. Og það eru sko engin mörg ár síðan. Næstum því bara í fyrra sko! ;)

Ef ég held mér við svefn tal, þá gæti ég trúað að ég sofi að meðaltali 9 tíma á sólarhring, og já það er mikið fyrir manneskju í fullu námi og ca. 30% vinnu, og ”allt” hitt sem ég tek að mér. Það væri nú alveg stórfínt að ná svona miklum svefni, og hafa það svo svona frábært þá tíma sem ég er vakandi, en ég er öruggleg þreytt ca. Aðra 9 tíma á sólarhring! Og hvenær er ég svo ekki þreytt?!? Þá örfáu tíma, sem ég ætti í raun að vera sofandi – seint á kvöldin! 

Ég veit svosem upp á mig sökina fyrir þreytu síðustu vikurna! Ég er svoooo upptekin af fáranlegum hlutum og útúr heiminunm með mínar eigin hugsanir, að ég gleymi eða nenni ekki að borða almennilegan mat, og fæ þar með enga orku.  Leiðinlegt, en algjörlega mér að kenna.

Og þangað til næsta blogg ætla ég að vinna í þessum svefn og mat vanda mínum og vera þvílíkt hress (jah, allavega betri) þá vikuna! :) 


Langþráð frí!

Skilaði inn lokaprófsritgerðinni minni dag, sem þýðir að ég er komin í frí! Loksins. Ekki að ég geti kvartað þannig lagað séð - þar sem jóla"fríið" er nýbúin, en í því nýttist 1 dagur í afslöppun, hinir fullbókaðir!

og ætli þetta 10daga frí mitt verði það ekki líka. Sá reyndar í dag að það er "studiedag" fyrstu 2 dagana, þannig þarf ekki að mæta í skólann fyrr en 10.febrúar. Þarf samt sem áður að lesa fyrir tímana, vinna báðar helgarnar, fara í 3tíma blóðþrýstingsrannsókn, fara til annars læknis, skila bókum og taka nýjar, tala við skattinn og vinna í umsóknarferli, og svo hygge kvöld með studiegrúppunni minni, og hitta aðra vinkonu. Tek svo smá afslöppun inn á milli! 

Annars er skólaplanið út þessa önn ekki leiðinlegt! Byrja á 2 vikum í skólanum og svo 8 vikur í starfsnámi á plejecenter. Eftir það eru aftur 2 vikur í skólanum til að undirbúa sig fyrir 8 vikna starfsnám innan geðdeildar. Þetta þýðir samt að ég fer ekki í sumarfrí fyrr en 2.júlí!!!! Eins og það var leiðinlegt að hanga í skólanum á vorin á Íslandi, því það var svo gott veður, þá ætlast ég til að geðdeildin verði sem best svo ég hugsi ekki allan daginn hvenær ég komist út í góða veðrið! ( Því að sjálfsögðu er ég búin að panta gott veður í DK í sumar!) 

oh. Elska bara hvað allt er æðislegt svona rétt eftir að skila inn lokaprófinu sínu! haha :D 


Verslunarferð

Mér er sko alveg sama hvað ég talað um við Rocky minn, svo lengi sem ég get tekið hann með mér í shopping ferðir! Djöfull verðum við flott par!
mbl.is Kynlífsleikfang sem ræðir um knattspyrnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þyngd, takk þið!

Er á þvílíkum bömmer yfir að hafa þyngst um ca. 10kg síðan ég hætti á danska. sem þýðir að ég er á sama stað og áður en ég byrjaði! :( Er að reyna að venja mig á að hugsa að þetta skipti litlu máli - þá sérstaklega í ljósi þess að ég fer í ræktina á hverjum degi + borða rétt, þannig er á réttri leið.

HATA svona daga eins og í dag. Og ekki einu sinni klukkutími í ræktinni bjargaði geðheilsunni minni.  O ekki nóg með að ég sé að vorkenna sjálfri mér, þá vorkenni ég Ato næstum því meira að þurfa að þola mig í dag! (Svona þar sem ég fór ekki í skólann vegna alls!)

Og þar sem ég er nett pirruð yfir öllu í dag, þá ætla ég að blóta sumum sem voru með mér í grunnskóla, sem tókst að eyðileggja margt og mína sjálfsímynd! Takk þið! :( Vildi stundum að ég gæti gleymt sumum árum ...! 

 


mjóa og fallega ég!

Ef ég hefði verið skrá þarna inni, verið mjó og falleg fyrir jól, hefði mér klárlega verið hent út núna eftir jólin! Þökk séum góðum og miklum aukakílóum og centimetrum sem ákváðu að gera sér bólfestu á andlitinu og maganum. Ekki fallegt það.

En það fékk mig nú samt til að drulla mér í ræktina, og hætta að borða nammi eftir að ég lenti í DK núna 1sta jan! Húrra fyrir því. Er þó ekki fær um að hlæja mikið þessa dagana, né labba upp stiga vegna harðsperra í magavöðvum.

á mér gott og stórt markmið, en þyrfti nú samt sem áður mikið til að vilja vera skráð á þessari fallega fólks síðu. Ætla bara halda fegurðinni fyrir sjálfa mig ;) 

 


mbl.is Útskúfað af vef fallega fólksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt ár og ný verkefni :)

Gleðilegt nýtt ár!! Ég þakka fyrir það liðna (og liðnu). Og kem sterk inn í nýja árið! Hlakka til að takast á við fleiri verkefni, verða árinu eldri, flytja, þroskast og mála lífið eins og mér hentar – með góðar tilfinningar fyrir árinu.

Árið 2009.

Ég byrjaði árið á Potzdamer platz í Berlín, þá í 250 manna partýi (ásamt öllum hinum þúsundum sem voru þar líka). Daginn eftir fór ég á puttanum til Hamburg, og gisti þar í eina nótt áður en ég hélt áfram á puttanum til Köben. ”Hætti” með stráknum sem ég var að deita í byrjun jan og var ógeðslega fúl í 1 viku en lifði svo vel í venjulega farinu, skóli og starfsnám.

Sonja flutti til Finnlands í febrúar og ég og Petra vorum bara einar eftir í DK, af okkur sem kynntumst þegar við vorum Aupair. Petra mín flutti svo frá DK til Króatíu, í mars. Ógeðslega fúlt, en þakklát fyrir að kynnast henni. Varð eiginlega allt tómlegt eftir að hún flutti .. vantaði allt fútt í skemmtun og svona í Köben.

Í enda apríl hitti ég svo Ato. Það kvöld hafði ég labbað ca. 5 km á tásunum þar sem ég asnaðist til að fara í nýja skó í bæinn. Ato (ókunnugur þá ) kommentaði á að ég ÆTTI að fara í skóna mína aftur áður en ég myndi frjósa eða fá glerbrot í fótinn. Töluðum eitthvað saman í næturstrætónum líka og ákváðum að hittast um kvöldið aftur á Salsa stað.

Surprise surprise þá var ég að DREPAST í fótunum þegar ég vaknaði næsta dag og ekki séns að ég væri að fara í skó þann daginn, og hvað þá dansa! Og þar sem ég er lúði, og langaði að hitta hann aftur (hann sendi sms á undan ;)) þá bauð ég honum heim, þó nokkuð viss um að hann mundi EKKERT hvernig ég leit út ... Hann hefur næstum búið heima hjá mér síðan þá ;)

Petra mín kom í heimsókn til DK, til að hitta kærasta sinn en ég tróð mér inn í hennar plan bara til að hittast smá. Fékk að upplifa matarboð hjá fjölskyldu kærasta hennar þar sem var TROÐIÐ mat í mig. Var södd eftir fyrsta diskinn, en áttaði mig stuttu seinna að það hefði bara verið 1kjöt af 3 sem þau voru að borða, og ég átti að sjálfsögðu að smakka allt!

Ég kláraði skólann í enda júní, og ég byrjaði í þessari frábæru vinnu á endurhæfingardeild, rétt hjá þar sem ég á heima. Júlíana mín kíkti svo í heimsókn til mín og var í einhverja 1,5 viku .. aðeins styttra en hún ætlaði þar sem ég var að drukkna í vinnu, og ekkert gaman fyrir hana að hanga bara heima á meðan, þannig hún fór yfir til Bryndísar vinkonu sinnar á Jótlandi. Við skemmtum okkur nú samt vel með pikknikk ferð og Malmö t.d.  Í byrjun ágúst flutti svo Ato alveg inn heim til mín. Þetta var fyrsta árið í langan tíma sem ég ferðaðist ekkert um sumarið, en elsku mamma mín bætti mér það upp með að koma í heimsókn í helgarferð í ágúst. Við mamma fórum líka í verslunarferð til Malmö, löbbuðum um alla Köben, horfðum á myndir og versluðum aðeins meira. Fyrsta sinn sem ég var ein með mömmu í einhverja daga.

Viku eftir að mamma fór, byrjaði ég í skólanum. 2. ári í hjúkrunarnáminu. Við vorum í kennslu í 2 vikur og svo BRJÁLUÐ verkefna vinna þar sem við 3 vinkonurnar í skólanum skrifuðum ritgerð um fósturskannannir. Upp úr því fann ég út úr því svona nokkurn vegin að ég ætla að  vinna innan fæðingar og meðgöngu geirans þegar ég verð ”stór”.

Rétt áður en verkefna vinnan byrjaði, skellti ég mér til Andreu í Berlín og var þar yfir helgi. Það var æðislegt! Ferðirnar til og frá ( á puttanum) gengu eins og í sögu. 11 tímar til Berlín, og 7 tímar heim til Köben. Við Andrea hlóum eins og asnar, versluðum ( ég verslaði, og andrea fylgdi með í búðirnar;)). Reyktum okkur ”fullar” á einhverjum vatnspípu bar. (Næstum skaðlaust tóbak, sem fór greinilega bara of illa í mig..)

Viku fríið mitt í byrjun  nóvember fór í að SOFA. Og tíminn flaug og ég byrjaði aftur í skólanum. Vildi að ég gæti sagt að ég hafi gert eitthvað síðan ég byrjaði í skólanum þar til ég kom til Íslands 14.des! Skil eiginlega ekki hvernig ég hef farið að því að gera ekkert annað læra og sofa síðan miðjan nóv.

Jæja. Kom svo loksins til Íslands, þá í fyrsta sinn síðan í mars 2008! Get ekki logið því að það hafi ekki verið æðislegt að hitta vini og fjölskyldu aftur. Hildur elskan mín sótti mig á flugvöllinn, engir smá endurfundir. Vorum að hittast í fyrsta sinn síðan 8.júlí 2007 ( útskriftarveislan mín). Ég fékk líka að sjá litlu Söndru hennar sem  er algjört gull. Ég var fyrstu nóttina hjá Hildi og hef svo bara flakkað á milli mömmu, pabba, vina og ættingja  síðan ég kom. Var hjá mömmu á aðfangadag, pabba um kvöldið og fór svo aftur til mömmu á jóladag þar sem við opnuðum restina af pökkunum. 

Á áramótunum borðaði ég svo hjá mömmu, og fór svo á brennuna og fagnaði nýja árinu með pabba, sally og Maríu.

Búin að hafa það sem allra best heima á Íslandi í faðmi fjölskyldu og vina, en hlakka til að komast heim ... í annan faðm ;)


Hætt við að koma til Íslands í næstu viku ..

... því ég get fengið ókeypis kynlíf með vændiskonu hér í Köben! Vil ekki missa af svona kosta kjörum!
mbl.is Danskar vændiskonur bjóða ókeypis þjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á þörfinni ...

... frekar slæmt þegar þegar maður er á þörfinni fyrir að skrifa eitthvað inn á bloggið sitt. EKki það að ég mætti gera mikið meira af því, sérstaklega þegar ég hef lofað öllu fögru varðandi bloggið - síðustu mánuðina!

Það er annars lítið að frétta frá okkur. Ég kem heim 14.des og tilbaka með morgunflugi 1.jan! Skemmtilegt það- maður hefur þá 3 tíma til að plana hvernig maður ætlar að standa við áramótaheitin sín;)

Við erum enn í krísu um hvað okkur langar að gera/ hvað við getum gert. Þetta herbergi mitt er frekar lítið fyrir okkur bæði 2, og ef ég á viðurkenna þá er ég hálf þreytt á að búa hérna. Draumurinn um mitt eigið eldhús magnast upp í hvert skiptið sem ég stíg inn í eldhús - og þá sérstaklega þegar allt er í RÚST þar - sem er nánast alltaf! ?
Og það væri heldur ekki slæmt að hafa eitt svefnhergi, svona sér, svona í ljósi þess að við sofum á sitthvorum tímanum. (svona næstum)

Hef verið eitthvað slöpp seinustu vikurnar, on off hausverkur síðustu 4-5 vikurnar og svimi í hvert einasta skipti sem ég stend upp. Þessa vikuna varð ég enn verri og hausverkurinn magnaðist með hverjum tímanum og ég gat ekki staðið lengi án þess að svima. Skellti mér loksins til læknis- en þó eiginlega bara því mér var skipað af mömmu og kærasta.

OG eeeelsku læknirinn minn vildi meina að hausverkurinn væri því ég væri nemandi - því halló, eins og allir vita þá reynir á að læra og lesa. Þetta fékk ég að vita eftir að ég sagði að ég væri ekki vön að fá hausverk, hafi fyrst fengið hausverk þegar ég var 16 ára og gæti talið á fingrum hægri handar hin skiptin- þar til þetta byrjaði núna í enda sumars. Sviman gat hún altså ekki útskýrt samt sem áður. Og þar með var læknisheimsóknin búin í hennar augum - þar til ég bað vinsamlegast um að hún sendi mig í blóðprufu, sem hún tók ekkert of vel í fyrst, það væri föstudagur og að koma helgi. Fékk nú samt sem áður blaðið með mér, og gæti farið í næstu viku; sem verður það fyrsta sem ég geri í byrjun nýrrar viku. Ég fer svo einnig í hjartarit ásamt einu öðru riti. Vona svo bara að það komi það besta úr þessu öllu saman :)

Ekki verður mánudagurinn bara þekktur fyrir blóðprufur og rit, hafði hugsað mér að verða 20.ára þann daginn líka. Finnst frekar leiðinlegt að hugsa til þess að ég sé ekki að halda upp á 20 ára afmælið mitt, en ég bíð þá bara spennt þar til ég verð 21, þó eg eigi ekkert frekar von á að halda upp á það þann daginn.

Ég skelli mögulega inn niðurstöðum úr prufum í næstu viku, og fleiri fréttum ef eitthvað afar spennandi gerist næstkomandi viku. Þangað til hef ég allavega ekkert að skrifa.

Góða nótt og sunnudag!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband